Brotnir fætur og brotnar sálir

siljaSilja Björk skrifar:

„Að vera inn á geðdeild er eins og að vera fótbrotin á sjúkrahúsi“

Þessi litlu skilaboð voru hripuð niður á þakkarbréf bestu vinkonu minnar til mín eftir að ég hringdi í hana í offorsi og bað hana að keyra mig upp á spítala. Ég hafði innbyrt hálfan lyfjaskápinn og setið yfir dimmustu krikum veraldarvefsins sem áttu að leiðbeina mér áfram í þessari tilraun minni til að taka mitt eigið líf.  

Í dag er alþjóðadagur sjálfsvígsforvarna, dagur sem ætti að hafa mun stærri sess og meira umtal í okkar samfélagi. Það er ömurleg staðreynd, en staðreynd engu að síður, að sjálfsvíg verða æ algengari og algengari í nútímasamfélagi en umtalið breytist því miður hægt og harla lítið.

Ég hef rætt það í fyrri skrifum mínum og predikað það í forvarnarpistlum að sjálfsvíg, eins vofveiglegur atburður og það er, getur ekki talist sjálfselska. Nú gæti þessi skoðun mín reitt einhverja til reiði en ég skal útskýra mál mitt.

Ég þjáist af sjúkdómi. Þessi sjúkdómur sést kannski ekki utan á mér, hann hefur kannski ekki stórtæk áhrif á daglega líkamstarfsemi mína en hann er samt til staðar. Ég tek lyf á morgnanna, ég berst allan daginn við fylgikvilla þessa sjúkdóms og ég hef þurft að takast á við verstu bakslögin sem þessi sjúkdómur bíður upp á  – sjálfsvíshugsanir og tilraunir til þess.
Þessi sjúkdómur er þunglyndi.

Tilfinningar þessar, það að óska eigin dauða, eru tilfinningar sem ég óska ekki upp á mína verstu óvini. Ég óska það engum að liggja í hnipri á gólfinu, öskrandi af tilfinningalegum sársauka og vilja ekkert heitar en að þurfa ekki að vakna næsta dag. Þetta eru hugsanir sem þunglyndissjúklingar og í raun margir aðrir sjúklingar, þurfa að glíma við á hverjum degi kannski. Sem betur fer er erfitt að útskýra þessar hugsanir fyrir þeim sem ekki hafa upplifað þær. Sem betur fer hafa ekki allir kynnst þessu sjálfshatri, þessari sjálfsásökun og þeirri gríðarlega sorglegu rökvillu að finnast maður eiga skilið að deyja.

Ég hugsaði oft með mér að sem þunglyndissjúklingur væri ég byrði. Ég væri ekki einungis mín eigin byrði, ég væri byrði á fjölskyldu minni, vinum og jafnvel samfélaginu í kringum mig. Ég væri einskis virði og allir í kringum mig yrðu örugglega bara fegnir að losna við mig úr þeirra lífi. Ég hugsaði oft að mamma og pabbi þyrftu ekki annað en að borga eina jarðarför,  ég myndi bara skrifa þeim bréf sem útskýrði þetta allt saman og þau myndu með tímanum bara átta sig á því að það væri betra fyrir þau ef barnið þeirra lægi undir grænni torfu.

Með sjálfsvígstilraun minni ætlaði ég þar með ekki einungis að binda enda á mínar eigin þjáningar, stoppa mínar sáru, vondu hugsanir og koma í veg fyrir að ég þyrfti að takast á við erfiðleikana sem stóðu frammi fyrir mér, heldur ætlaði ég líka að frelsa fjölskylduna mína frá þeim hlekkjum sem mér fannst ég vera að binda þau niður með. Ég get ekki með neinu móti reynt að útskýra það betur en svo að sársaukinn var það mikill, angistin, reiðin og vonleysið svo drífandi í mér þá stundina að ég sá enga aðra leið úr þessu ástandi en að gleypa hálfan pilluskápinn, skola honum niður með gúlsopum af líkjör og binda snöru á ljósakrónuna.

Ég vona að fólk sjái að sér og hætti tafarlaust að segja fórnarlömb sjálfsvígs séu bara sjálfselskir aumingjar sem hafi ekkert hugsað út í fjölskyldu sína og aðstandendur. Jú víst var ég að hugsa um mömmu, elsku fallegu mömmu mína sem hefur þurft að vaka yfir mér hágrátandi, sem hefur þurft að leggja út fyrir lyfjum og sálfræðikostnaði, mömmu minni sem hefur haft áhyggjur af mér í næstum því fjögur ár. Mömmu minni sem ég er búin að brjóta niður, mömmu minni sem ég veld vonbrigðum daglega með hegðun minni og framkomu, saklausu mömmu minni sem bað ekki um veikt barn. Ég hugsaði bara víst um hana þegar ég sat með pilluglasið í annarri og áfengið í hinni. Ég hugsaði um það hvað það væri gott fyrir hana að þurfa ekki lengur að hafa áhyggjur af mér, ég hugsaði hvað hún myndi spara mikla peninga á því að þurfa ekki að halda mér uppi og ég hugsaði um hvað hún hlyti að vera fegin því að vita að ég finndi ekki lengur til sársauka.

Þannig virkar þessi sjúkdómur, þannig virka þessar hugsanir. Þær eru villur, rökleysa sem yfirtaka vit okkar og senda alla skynsemi á brott. Þarna er botninum algjörlega náð og leiðin upp á við er stórgrýtt og torfær. En það er til leið og hana má klífa.

Þegar ég vaknaði upp á gjörgæslunni, með súrefni í nefinu og næringu í æð, leið mér ef til vill verr en mér hafði liðið deginum áður. Tilraun mín hafði mistekist og núna kæmu enn verri eftirmálar – að takast á við hlutina, eitthvað sem hefur alltaf reynst mér svo erfitt. Frá og með þeim degi hófst ný barátta fyrir mig, stríð sem ég herja við sjálfa mig á hverjum einasta degi þó ég beri það kannski ekki utan á mér. Það er brynjan okkar og sverð – leyndin og feluleikurinn. Að enginn átti sig á því að við erum veik, að við erum ekki heil og getum ekki rifið okkur upp úr lægðunum sem við lendum í eins og næsti maður virðist eiga auðvelt með.

Mér finnst það miður þegar samfélagið og undirliggjandi fordómar þess grafa undir þeim ömurlega sjúkdómi sem þunglyndi er. Þegar lítið er gert úr okkur (og öðrum sjúklingum sem þjást af geðkvillum) og við bara málaðir upp sem einhverjir aumingjar, letingjar og vælukjóar. „Hvernig getur sjálfsörugg, flott og gáfuð stelpa eins og ég sem ekkert skortir í lífinu, verið svona þunglynd? Hvernig getur svona skynsöm ung kona ekki áttað sig á því að það er ekkert að hjá henni annað en vælið í henni?“

Af því ég er veik. Af því ég er með sjúkdóm sem ég ræð ekkert við. Samfélagið myndi aldrei láta hafa það eftir sér að krabbameinssjúklingurinn, sem eftir áralanga baráttu kvaddi þennan heim af völdum sjúkdómsins væri bara sjálfselskur aumingji. Fólk verður ekki reitt við krabbameinssjúklinginn. Hvernig eru þá fórnarlömb sjálfsvígs einhverju frábrugðin ef þeirra sjúkdómar leiða þau einnig til dauða, burt séð frá því hvernig endalokin bar að?

Sem betur fer sé ég það í dag að þessi tilraun mín var í besta falli misheppnað ákall á hjálp, göng vonleysis sem ég sá ekkert ljós í en á nú von að sjá í bjartari endann. En þó mér líði betur og þó ég geti verið í kringum hnífa, lyfjaskápa og hægt sé að treysta mér fyrir sjálfri mér – læðast þessar hugsanir enn að mér. Þær ná kannski ekki sömu hæðum og þær gerðu þann 18.júní síðastliðinn en þær koma samt.

Vera mín á geðdeild Fjórðungssjúkrahússins var mér erfið en skilaði sér á endanum. Fyrst um sinn skammaðist ég mín fyrir að liggja inni, ég barðist á móti og vildi bara komast heim. Mér fannst algjör fásinna að ég þyrfi að vakna á morgnanna á settum tíma, borða morgunmat og lifa lífinu eftir einhverri ákveðinni dagskrá í kringum mun veikari einstaklinga en mig sjálfa. Þóttist bara vita betur og geta tekið á þessum atburði upp á eigin spýtur. En það var ekkert annað en hroki og hræðsla í mér, holdgervingur minna eigin fordóma. Svo ég vitni nú aftur í góða vinkonu mína: „Ef þú væri fótbrotin myndir þú ekki bara labba hér út. Nú ertu brotin á sálinni, það er alveg eins“.

Af hverju á ég að skammast mín fyrir að hafa legið inni á geðdeild? Af hverju á ég að skammast mín fyrir að hafa rætt við sálfræðinga, geðlækna og hjúkrunarfólk? Af hverju þarf ég að skammast mín fyrir að leita lausna á vandamálum mínum?

Hvernig gerir þessi sjúkdómur mig að sjálfselskum aumingja?

Þess á ekki að þurfa, en við gerum það því miður samt. Við hræðumst umtal og slúður, við hræðumst að vera merkt sem einhverjir „klepparar“ og viljum ekki að skoðanir annarra á okkur breytist vegna sjúkdóms okkar. Það þurfti ég að glíma við, þessa viku sem ég lá inni; að takast á við eigin fordóma og taka utan um þá staðreynd að ég væri veik og ég þyrfti faghjálp. Rétt eins og krabbameinssjúklingur sækir efnameðferð, rétt eins og manneskja með tannpínu leitar til tannlæknis – leitaði ég, manneskja með geðsjúkdóm, til geðlæknis.

Verum meðvituð um okkar eigin geðheilsu og geðheilsu annarra. Dæmum fólk ekki útfrá þeim kvillum sem kann að hrjá það – því enginn kýs það að verða veikur. Föðmum hvort annað, verum umburðarlynd og reynum að skilja að ekki eru allir sjúkdómar sjáanlegir utan frá. Verstu barátturnar heyjum við, við okkur sjálf innra með okkur.

Munum, sama hversu óheyrilega erfitt það kann að vera, að það er alltaf ljós í enda ganganna. Það kemur alltaf jafnslétta á eftir brekku, það kemur dagur eftir þennan dag. Höldum í þetta eina stutta líf sem við fengum og reynum að gera það besta úr því.

Dæmum ekki brotna fætur og dæmum ekki brotnar sálir. 

40 comments

 1. Vigga

  Pabbi minn óskaði þess að hann væri með “alvöru” sjúkdóm sem drægi hann til dauða. Hann fyrirfór sér. Mér var sagt að þekkingin á heilabúinu væri í stöðugri framför og næsta víst að einn daginn verði komin lækning. Skilningurinn er allavega kominn og áhugi á að rannsaka heilann.
  Heilinn stjórnar öllu, sendir skilaboð um líkamann um allt sem við upplifum, finnum, heyrum, sjáum. Stundum klikkar hann, sendir boð um sársauka sem er ekki til staðar eða sendir ekki boð um að þú eigir að finna til ef þú t.d. brennir þig.
  Margslungið líffæri og það þarf varla að nefna það finnst mér að allir sjúkdómar tengdir heilanum eru alvöru sjúkdómar. Heilinn er eitt mikilvægasta líffærið ef ekki það mikilvæasta. Hvað ertu þó hjartað slái ef heilinn er dáinn.
  Gangi þér vel Silja Björk og ykkur öllum sem þjáist af sjúkdómum tengdum heilanum og verið þakklát fyrir að vera þó enn með lifandi heila þó hann segi ykkur rangt til stundum.

 2. Tanja M. Ísfjörð Magnúsdóttir

  Ótrúlega vel skrifuð grein hjá þér! Ég var lengi að viðurkenna að ég væri að glíma við þunglyndi. Í dag er ég fegin að hafa viðurkennt þunglyndið og fengið hjálp, þú ert flott að skrifa um þetta.

 3. Elín Björnsdóttir

  Þú ert Hetja Silja mín !! og mundu að Guð skapar ekki skran . Hann elskar okkur öll ❤ Og þeir sem viðurkenna og sjá veikleika sína þeir eiga miklu meiri von en hinir sem loka á og ganga í blindni
  . Áfram Silja !! og takk fyrir frábæra túlkun á þessum hræðilega sjúkdómi sem allir eiga að hjálpast að við að uppræta ❤

 4. Tinna

  takk elsku silja fyrir þessa grein. ég er sjálf búin að glíma við þunglyndi í allt of mörg ár og þú varst meira og minna að lýsa mér. þessi endalausi sársauki og tilfinningin um að allir séu betur settir án manns. ég hef sjálf reynt að taka eigið líf en sem betur fer aldrei tekist það og ég hef lifað í skömm um hvað öðrum finnst um það, því einmitt það eru allt of margir sem finnst þetta vera “aumingjaskapur”. þetta er grein sem allir ættu að lesa. þú ert algjör hetja silja, mundu það. ❤

 5. Anna Lísa Baldursdóttir

  Þakka þér fyrir afskaplega skýra lýsingu á djúpum dölum þunglyndisins. Ég hef einmitt álitið þessa “leið út” sjúka en sjálfselska. Nú veit ég betur. Góðan bata og gangi þér sem allra allra best yndislega unga kona.

 6. elinkristjans

  Þetta er rosalega vel skrifuð og frábær grein hjá þér. Ótrúlega hugrökk sem þú ert að stíga út og svara fordómum samfélagsins um þennan sjúkdóm. Þú hefur tekið mjög stórt skref og bjartari hliðar lífsins eru alveg greinilega handan við hornið hjá þér! Haltu áfram að vera hetja 🙂

 7. Esther Þorvaldsdóttir

  Þú ert frábær stúlka að hafa slíkt hugrekki og dugnað að upplýsa okkur um eðli og afleiðingar þunglyndis! Gangi þér vel, og þú átt stuðning minn og örugglega margra annarra með að koma fram og ræða málin! Þakka þér ❤

 8. María Magnúsdóttir

  Þú ert mjög dugleg, hugrökk og greinilega vel gerð stúlka, haltu áfram, ekki gefast upp, því þú munt komast yfir þetta, Guð blessi þig, styrki og lækni!

 9. Særún

  Kærastin minn hefur lengir verið að glíma við þunglyndi, þannig að lífið hefur ekki alltaf verið dans á rósum – fyrir okkur bæði. Margir hafa spurt mig að því hvers vegna ég fari ekki bara frá honum? En ég þekki þunglyndi af eigin raun og geri mér fullkomlega grein fyrir því að það er alvarlegur sjúkdómur. Ég hef því oft svarað til baka: Hann er þunglyndur, þunglyndi er sjúkdómur, myndirðu spyrja mig að því hvers vegna ég fari ekki bara frá honum ef hann væri með krabbamein?

  Vonandi lesa sem flestir þessa grein því hún gæti opnað auga margra. Þú átt virkilega hrós skilið. Gangi þér sem allra best.

 10. Birgitta

  “Kleppur er víða”. Þessi setning úr Englum alheimsins finnst mér segja svo margt. Þú ert ekki ein Silja mín og það er víst hverju orði sannara að andlegir sjúkdómar sjást sjaldnast utaná fólki. Maður hefur ekki hugmynd um hverjir berjast við þá. Greinin þín er frábærlega skrifuð, af mikilli einlægni, og lætur fáa ósnortna. Það er mikil þörf á að halda opinni umræðunni um andlega sjúkdóma þar sem fordómarnir eru oft stutt undan. Ég hef fylgst með þér í gegnum eina af vinkonum þínum. Gangi þér vel í baráttunni. Ég hef trú á þér. Þú hefur allt til brunns að bera. Knús…

 11. Sibba

  Ótrúlega vel skrifuð og einlæg grein – það eru einstaklingar eins og þú sem breyta heiminum og draga úr fordómum – flott hjá þér!!

 12. Margrét

  Einstaklega vel skrifuð og málefnaleg grein hjá þér um hluti sem eru allt of sjaldan til umræðu í okkar samfélagi. Ég á við sömu veikindi að stríða og nær allt mitt líf hefur einkennst af þessari sömu baráttu og þú varst að lýsa. Það er gott að sjá svart á hvítu að maður er ekki einn um þetta (manni finnst það oft) og einnig að hægt sé að losna við fordómana gagnvart sjálfum sér. Maður er algjörlega sjálfum sér verstur í þessum SJÚKDÓMI.
  Þunglyndissjúklingar eiga langt í land með að fá sjúkdóm sinn viðurkenndan á sama hátt og líkamlegir sjúkdómar á borð við krabbamein eru viðurkenndir, en ég hef trú á því að það muni verða svo.
  Haltu áfram á beinu brautinni, það er þrotlaus vinna að tolla þar inni en algjörlega þess virði.

 13. Inga Vala

  Vel gert Silja! Mikið mátt þú sjálf og fólkið þitt vera stolt af þér. Mér fannst þú lýsa sérstaklega vel þessari tilfinningu um að vera byrði og að ástvinir manns væru betur komnir án manns. Ég hef misst ástvini vegna sjálfsvígs og er sannfærð um að þar hafi þessar hugsanir náð yfirhöndinni en ekki sjálfselska. Ég reyni að minnast ástvina minna fyrir hvernig þeir lifðu en ekki hvernig þeir dóu og reyni að gera mitt til að sleppa öllum feluleik. Ég er orðin vön því að þegar ég kynnist fólki og það spyr hvernig fólkið mitt dó þá svara ég einfaldlega ,,úr þunglyndi” rétt eins og ,,úr krabbameini.” Fordómar fara ekkert nema maður vinni fyrst í sínum eigin. Með þessum skrifum ert þú að hjálpa öðrum – takk fyrir hjálpina!

 14. Berglind Hilmarsdóttir

  Takk fyrir virkilega góða grein Silja – þú hittir sannarega naglann á höfuðið með lýsingu þinni. Svo þróast sjálfsvígshugsanir í eins konar fíknhegðun þar sem tilhugsunin um hvað þetta verður mikill léttir fyrir alla nær yfirhöndinni. Þegar “lausnin” er síðan fundin getur fylgt því bara nokkuð góð tilfinning og því undrast fólk stundum af hverju þeir sem fyrirfara sér hafa virst svo glaðir… nokkrum dögum eða vikum fyrr!!! Þraukaðu áfram Silja, þetta er púl og strit, en niðurstaðan – að ákveða að lifa, er samt betri en “lausnin” – að ákveða að deyja. Bókin ” The Road Less Travelled” eftir Scott Peck er góð lesning og skemmtileg, einkum þegar maður er staddur úti á miðjum akri með drullupolla og illgresi allt í kring. Hún byrjar á þessum orðum. Life is difficult…..
  Kær kveðja.

 15. Alice Harpa Björgvinsdóttir

  Takk fyrir frábæra grein um mjög erfitt viðfangsefni. Það eru ekki allir sem þora að opna sig og ræða líðan sína svona opinskátt. Með því erum við þó að auka skilning og minnka fordóma á þessum málaflokki. Mjög þarft. Gangi þér vel í baráttunni því þetta er barátta sem er vel hægt að sigra. Bestu kveðjur.

 16. Eva Dögg Guðmundsdóttir

  Rosalega flott grein hjá þér. Sem betur fer er umræðan að opnast um andlega sjúkdóma, áður fyrr var þetta svo falið og fáir sem enginn þorði að tala um þetta né leita sér hjálpar. Svo fólk var og er því miður oft eitt með sínar hugsanir vegna fordóma sem eru ennþá þó þeir fari sem betur fer minnkandi. Hef sjálf verið með ofsakvíða sem ég náði tökum á um leið og ég viðurkenndi hann sem tók mig mörg ár að gera en lausnin fólst í Hugrænni atferlismeðferð og dáleiðslu. Er með kvíða í dag en tekst á við hann eins og hvert annað verkefni og þetta hefur styrkt mig og gert mig að þeirri manneskju sem ég er í dag. Það voru einhverjir sem höfðu ekki trú á að það væri hægt að losna við ofsakvíða en ég afsannaði það og kom sjálfri mér á óvart 😉 Þegar öllu er á botninn hvolft liggur leiðin oftast upp á við 😉 Gangi þér súper vel.

 17. Silja Björk

  Sæl öll og kærar, KÆRAR ÞAKKIR, fyrir gullfalleg viðbrögð og hughreystandi orð til mín! Þetta gerir ekkert annað en að styrkja mig sem manneskju og hvetja mig áfram í baráttu minni gegn þessum fordómum 🙂 Þið eruð öll svo fallegt fólk, þakka ykkur kærlega, ég er upp með mér og orðlaus.

 18. Þórdís Malmquist

  Kærar þakkir Silja Björk, ég hef einmitt verið “logandi hrædd” við stimpilinn í mörg ár og staðið mig vel í að bera mig vel. Hjúkra og sekk mér niður í vinnu við að sinna öðrum. Núna er ég að vona að ég geti tekið mér tíma til að sinna sjálfri mér og fá stuðning til að líða betur alla daga án þess að missa mig niður í dimmu og þreytu nokkra daga. Trúin hefur bjargað mér og bænheit vinkona mín verið mér algjör björgunar “bátur”, verst að ég hringi ekki fyrr en mér líður verulega illa.Talaði við geðlækni í mörg ár en það er verst hvað það er dýrt að sækja slíka aðstoð. Þurfum að hafa betri lausnir. Guð blessi þig og gangi þér vel.

 19. Sigurlína Óskarsdóttir

  Silja Björk Þú ert hetja að koma með söguna þína! Ég segi” aldrei gefast upp” leitaðu þá frekar hjálpar þeger það þyrmir yfir þig!. Geðklof, Geðsýki eða hvaða nöfnum það heitir er “Sjúkdómur” sama hvað hver segir. Ég fékk krabbamein (á 35 ára afmælisdeginum) og mér hefur gengið vel eftir það (þökk sé guði) En í sambandi við geðsjúkdóma gegnir öðru máli og þá í sambandi við hvað aðrir segja og líta niður á þennan sjúkdóm. En í dag er þetta viðurkendur sjúkdómur og engin á að þurfa að skammast sín fyrir að hafa hann. Og ég lít niður á fólk sem talar um “geðsjúkling” eins og verstu pöddu. Ég reiðist ekkert smá mikið!!
  Ég lenti í því í vinnunni minni sem ég hafði starfað við í um 10 ár þá (og reyndar frá upphafi því þetta var alveg nýtt starf á mínum vinnustað) þegar ég fékk nýjan “yfirmann” sem ætlaði að breyta mínu starfi algjörlega. Ég er þrjósk og hafði komið þessu starfi af stað án hjálpar og gengið vel. Starfsfélagar mínir voru ánægðir og ekkert að! En “Hún” þessi nýji yfirmaður var með aðrar skoðanir um mitt starf, vildi umbreyta því gjörsamlega! “kannski annara líka” veit ekkert um það en allavega kom hún mér þannig í upnám “ég er mjög ákveðin og þrjósk” en tók mjög nærri mér allt í sambandi við “mína vinnu og rifrildill og leiðindi þar sem ég taldi að ég hafi alltaf unnið vel. En Hún hélt áfram!!!! En fljótlega fór ég að finna fyrir allskonar veikindum. þar á meðal fór ég að leggja af svo um munar, var með niðurgang og uppköst daglega, svo endaði ég á að leita til heimilislæknis míns sem leist ekkert á blikuna og fór að senda mig í allskonar rannsóknir, magaspeglun, ristilspeglun, allskonar skann og svo auðvitað fullt af blóðprufum. Það fannst ekkert að mér! Allar rannsóknir komu vel út! Sem sagt ekkert líkamlegt að mér. Þá var ég búin að leggja af um 15 kíló á nokkrum mánuðum (En alls voru þau um 20 kíló sem fóru svo er ekki allt með öllu illt)

  Svo þá fór hún að spyrja mig um heimilisástandið. Ég sagði eins og er “ekkert að” og þá spurði hún mig um vinnuna, Sama svar “allt í lagi” En hún gekk á mig svo það endaði á því að ég opnaði mig og sagði frá öllu í vinnunni síðastliðin tæp. 2 ár og þá áttaði hún sér á að þetta var vinnustress. Hún vildi senda mig í 6-12 mánaðar frí! Ég sagði “Nei takk” Það er nýlega komin kreppa í landinu og vinnustaður minn hefur ekki efni á að halda mér uppi í “sjúkdómsfríi” og fá aðra í minn stað! Hún reyndi að tala um fyrir mér en ég gaf mig ekki. Ég sagði að til guð blessunar væri ekkert líkamlegt að mér svo ég gæti þá alveg unnið! Hún spurði mig þá hvort ég væri tilbúin að fara til Sálfræðings “bara til að létta á mér og hélt nú það, það yrði bara í besta móti! Ég fór til þessarar yndislegu konu og opnaði mig alveg upp á gátt og eftir 5 tíma sagði hún mér að ég væri útskrifuð en ef eitthvað bakslag kæmi uppá þá mætti ég koma strax aftur! En ég varð svo ánægð eftir þessa fundi með sálfræðinginum að mér fannst ég ekki þurfa á þvi að halda að koma aftur,
  En nú er ég búin að missa þessa vinnu eftir “16” ár út af skipulagsbreytingu. Svo ég hangi hálfvegis í loffti, kann ekki að vera án vinnu en ég veit að þessi tímamót verða mér einhvernvegis til góðs!!!

  En elsku Silja Björk ég veit ekki í alvöru af hverju ég var að segja þér mína sögu en kannski skilur þú að við eigum okkur öll líf!! Engin þarf að skammast sín að þurfa að fara á Geðdeid eða ganga til sálfræðings. Sjúkdómur er sjúkdómur og við tökum á honum hvernig sem fer. Ég er viss um að mamma þín er ánægð að hafa þig hérna megin en ekki að hún þurfi að heimsækja þig í kirkjugarðinn.
  Stattu þig elsku Silja Björk og leitaðu alltaf til einhvers ef þér líður illa ❤ ❤ ❤ ❤

  Kær kveðja Lína

 20. Jón

  Takk fyrir Silja. Ótrúlega góð grein hjá þér. Hún lýsir mikilli greind en líka miklu hugrekki. Ég óska þér alls hins besta, alltaf.

 21. Pingback: Í ham
 22. Pingback: BROTNIR FÆTUR OG BROTNAR SÁLIR – Silja Björk
 23. Pingback: Silja Björk | BROTNIR FÆTUR OG BROTNAR SÁLIR
 24. Pingback: Silja Björk | BROTNIR FÆTUR OG BROTNAR SÁLIR

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s